26.05.2011 01:56
Rafrænn reiðtúr
Ágæti hestamaður,
fyrir skemmstu opnaði Félag hrossabænda nýjan vef á slóðinni www.icehorse-experience.is
Við leitum til þín eftir hjálp við að virkja mátt internetsins til dreifingar á
þessu kynningarefni.
Með því að senda öllum vinum og vandamönnum erlendis tengil inn á vefinn leggur
þú þitt af mörkum til að kynna íslenska hestinn og hestaferðir á Íslandi.
Einnig má fara inn á vefinn og senda þar rafræn póstkort sem er skemmtileg leið
til að vekja athygli á vefsíðunni.
Þeir hestamenn sem eru með eigin heimasíður geta líka óskað eftir að fá senda
hnappa eða borða til að setja upp á eigin síðum með tengingu inn á vefinn. Þeir
sem hafa áhuga á því geta haft samband við Félag hrossabænda í gegnum netfangið
fhb@fhb.is
Á www.icehorse-experience.is
má sjá 12 mismunandi myndbrot, en ætlunin er að fjölga þeim og auka
fjölbreytileika. Einnig er að finna á vefnum greinargóðar upplýsingar um
íslenska hestinn og uppruna hans en hlutverk vefsins er að vekja athygli á
hrossum fæddum á Íslandi og sérstöðu hrossaræktar og uppeldis hér á landi þar
sem frelsið og víðáttan spila stórt hlutverk.
Eins og hestamenn vita setti smitandi hósti í hestum á síðast ári sitt mark á
hestamennskuna og gríðarlegt tap varð í atvinnugreininni.
Því er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að kynna íslenska hestinn, sækja á
erlenda markaði og fara nýjar leiðir.
Með www.icehorse-experience.is
er leitast við að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi í markaðssetningu og kynningu
íslenska hestsins og hestaferða á Íslandi.
Á vefnum má fara "á bak" í rafræna reiðtúra og kynnast íslenska hestinum í
íslenskri náttúru. Myndskeið eru tekin upp frá sjónarhóli knapans og
áhorfandinn upplifir hvernig það er að sitja íslenskan hest og njóta
náttúrunnar í leiðinni. Áhorfandinn heyrir taktinn, sér faxið flaksa í fang
sér, horfir á umhverfi og samferðafólk og upplifir Ísland og íslenska hestinn
beint í æð.
Leggjumst öll á eitt og hjálpumst við að kynna íslenska hestinn úti um heiminn!
www.icehorse-experience.is