10.11.2011 22:12
Vætutíð
Holdhnjóskar er einskonar hrúður sem myndast í húð hrossa, oftast á lend, hrygg eða fótum. ORSAKIR: Vegna kulda og votviðris fara svokallaðir fitukirtlar í húð hrossa að framleiða of mikla fitu. Hún klístrast við hárin og það myndast einskonar hrúður.
Fitulagið á yfirborði húðarinnar er vörn hennar gegn ofþornun vegna hita og einnig gegn utanaðkomandi vætu, kulda og öðru áreyti. Nýjustu rannsóknir hérlendis hafa leitt í ljós, að frá 96% af hrossum með holdhnjóska ræktast bakterían dermatophilus congolensis. Þessi baktería lifir ágætu lífi á rakri húðinni.MEÐFERÐ: Mikilvægt er að taka hross inn á hús ef vart verður við holdhnjóska. Alls ekki reyna að losa upp hrúðrin með því að kroppa í þau, því þá myndast opin sár. Einnig mæli ég ekki með að setja parafínolíu á hrúðrin því raki/vatn getur legið undir olíunni og þá geta bakteríurnar lifað góðu lífi.
Til þess að gera hrossið reiðfært sem fyrst er best að láta það standa á þurrum og hlýjum stað. Ullarteppi hitar upp húðina og dregur fyrr úr bólgumyndun sem er til staðar í fitukyrtlunum. Þegar hnjóskarnir eru farnir að vaxa frá húðinni, þá fyrst má baða hestinn með mildri sápu til að losa upp þetta harða hrúður. Reynið síðan að þurrka húðina og hárin vel, (t.d. með handklæði eða jafnvel hárþurrku).
Þórunn Lára Þórarinsdóttir, dýralæknir