15.02.2012 14:30
Fundur í Hrísdal
Fundur með hestamönnum á Vesturlandi
Það var líf og fjör á fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga í hesthúsinu í Hrísdal á Snæfellsnesi á laugardaginn 11. febrúar. Stjórn LH hafði verið á tveggja daga stjórnarfundi á Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi, þar sem unnið var í ýmsum málefnum samtakanna og venju samkvæmt var síðan fundað með hestamönnum á svæðinu í tengslum við stjórnarfundinn. Haraldur Þórarinsson formaður LH hélt framsögu og fór yfir þau mál sem helst brenna á hestamönnum í dag, auk þess að segja frá áherslum stjórnarinnar í störfum sínum á árinu. Í framhaldi sköpuðust fjörugar umræður um reiðvegamál, en Vestlendingar telja sig hafa farið halloka í úthlutun reiðvegafjár undanfarin ár. Einnig var rætt um, keppnismál, fasteignagjöld af hesthúsum og fleira.
Í máli Haraldar kom fram að stjórn telur það mikið réttlætismál að hesthús verði í A-flokki við álagningu fasteignagjalda, hvar sem þau standa á landinu. Ef hestaíþrótt eigi að njóta sannmælis í þéttbýlinu og haldi áfram að blómstra á landsvísu, verði að tryggja að auknir skattar verði ekki lagðir á hestamenn. Hefur stjórn LH unnið markvisst að málinu og fól efnahags- og skattanefnd Alþingis innanríkisráðuneytinu að vinna frumvarp til breytinga á lögunum.
Haraldur gerði grein fyrir því að stjórnin hefði fallist á tillögu samgöngunefndar LH um breytingar á úthlutun reiðvegafjár. Breytingin felur í sér að tiltekin fjárhæð verður tekin til hliðar af óskiptu reiðvegafé og notuð til úthlutunar til fjölfarinna ferðamannastaða og reiðleiða, svo sem í leiðina um Löngufjörur og sambærilegar leiðir. Er þessi breyting til komin vegna athugasemda formanns Snæfellings til stjórnar LH og reiðveganefndar um hversu óréttlátt sé að minni félög á landsbyggðinni verji lunganu af sinni úthlutun til reiðvega í að halda við reiðleiðum fyrir ferðamenn, bæði íslenska og útlenda.
Einnig gerði Haraldur að umtalsefni þann gífurlega kostnað sem fellur á hestamannafélög á landsbyggðinni vegna ferðakostnaðar dómara. Eru til skoðunar leiðir til að bregðast við þessu og hefur stjórn LH skipað starfshóp sem á að koma með hugmyndir að lausn vandans, t.d. með stofnun jöfnunarsjóðs sem greitt yrði í af öllum skráningum og sjóðurinn notaður til að greiða dómurum vegna ferðalaga í stað þess fyrirkomulags sem nú tíðkast.
Að lokum gerði Haraldur velferðarmál að umtalsefni og sagði frá nýskipaðri velferðarnefnd LH og helstu hagsmunaaðila í hestamennsku, en henni er ætlað að vinna út frá þeim rannsóknum og niðurstöðum sem til eru og lúta að velferð íslenska hestsins, bæði í keppni, almennri notkun og við hestahald. Er ætlunin að svara þeirri gagnrýni sem upp hefur komið bæði innanlands og utan um velferð hesta á faglegan, uppbyggilegan og málefnalegan hátt.
Eftir framsöguna og svör stjórnarmanna úr sal tóku menn upp léttara hjal, gerðu sér veitingar að góðu og skoðuðu efnileg ung hross og folöld í hesthúsi Gunnars Sturlusonar í Hrísdal.