23.09.2014 12:09

Heimsókn ungs hestafólks úr Snæfellingi til IPN Roderath

 

 

 

Þann 5. Ágúst 2014 lögðu 11 ungir hestamenn úr Snæfellingi í ferð til Þýskalands.  Ferðin var farin í tilefni af samstarfi Snæfellings og IPNR sem er Íslandshestafélag í þýskalandi með heimavöll í Roderath.  Þetta er í fjórða sinn sem unglingaskipti milli þessara félaga eiga sér stað. Tvisvar hafa ungir þýskir hestaunnendur komið í heimsókn og þetta var í annað sinn sem við förum utan.

Auk ellefu ungmenna voru tveir fararstjórar þau Nadine Walter og Lárus Ástmar Hannesson. Ferðalagið stóð frá 5. til 12. ágúst. Undirbúningur hafði staðið í rúmt hálft ár og höfðu ferðalangarnir staðið fyrir fjáröflunum sem hjálpaði til við að greiða kostnaðinn. 

Aldeilis höfðinglega var tekið á móti okkur og fengum við gistingu inná heimilum og var mjög góð dagskrá með einhverjum atburðum og eða heimsóknum á hverjum degi. 

Eftir að hópurinn kom í Nettersheim þriðjudaginn 5. ágúst beið okkar garð grillveisla að hætti þjóðverja, heima hjá fjölskyldunni Widdau, og komu gestgjafaforeldrarnir með meðlæti.

Á miðvikudeginum var farið með rútu í heimsókn til Styrmis Árnasonar sem er íslenskur hestamaður sem rekur stóran hestabúgarð. Styrmir hefur starfað í 24 ár í þýskalandi. Ákaflega fróðlegt var að sjá hvernig hestabúgarðurinn er rekinn og hvernig starfsemi er þar.  Má segja að Styrmir og hans fólk geri útá nánast alla þætti íslandshestamennskunar. Þar er reiðskóli og þar getur fólk fengið að hafa sína hesta gegn gjaldi og komið og riðið út þegar tími er til. Styrmir er einnig með eigin ræktun og selur og kaupir hesta. Mjög stór reiðhöll er á staðnum og einnig reiðvöllur auk þess sem lítil veitingarsala er á staðnum og fengum við þar hádegishressingu.

Eftir góða heimsókn til Styrmis var keyrt og skoðuð höllin Brühl og okkur gefin innsýn inní líf aðalsins á þessum tíma. Greinilegt er að ekkert hefur verið til sparað þegar aðallinn var annarsvegar og var fróðlegast að heyra að almúginn gat fengið að koma, nokkrir saman, og horfa á fólið borða í veislusalnum og að á þessum tíma var fólkið ekkert að fara mikið í bað heldur úðaði yfir sig Kölnarvatni (ilmvatn).

Á fimmtudeginum var öllum smalað uppá traktórskerru og við keyrð í klifurgarðinn.  Þar sýndu íslensku víkingarnir hvað í þeim býr og vakri sérstaka athygli að þrjár ungar dömur úr okkar hóp leystu erfiðustu þrautina sem var að klifra saman upp risavaxinn stiga sem náði um 10 metra upp. Þar reyndi á að hjálpast að því allir þurftu að komast alla leið upp.

Daginn eftir klifrið var ferðinni heitið í kúrekahestabúgarð. Þar fengu allir að prufa kúrekahest auk þess sem aðalknapi búsins sýndi okkur vel þjálfaða kúrekahesta. Þar voru bremsurnar heldur betur í lagi en eitthvað þótti sumum knöpunum vanta töltið og viljinn frekar þungur. Að öðru leiti eru kúrekahestar greinilega geðgóðir og þægilegir hestar.

Á laugardeginum fórum við með lest til Kölnar til að skoða Kölnardóminn sem er ótrúleg bygging. Flestir lögðu leið sína uppá topp kirkjunnar en það eru einungis 700 þrep uppá topp. Þegar þangað er komið er útsýnið yfir Köln frábært. Eftir heimsókn í Súkkulaðisafnið var öllum sleppt lausum í búðir og var ekki annað að sjá en það hafi verið nýtt vel.

Sunnudagurinn var svo fjölskyldudagur þar sem ungmenni eyddu deginum með sínum gestgjöfum. Mjög mismunandi var milli fjölskyldna hvað gert var.

Á mánudeginum var svo haldið með lest í Phantasíaland sem er ótrúlega stórt tívolí / skemmtigarður.  Þar var deginum eytt í mis æsandi tækjum og fundu allir eitthvað við sitt hæfi.

Þriðjudagsmorguninn þann 12. ágúst hittust allir aftur heima hjá fjölskyldunni Widdau og borðuðu saman morgunverð, sótthreinsuðu föt, viktuðu töskur, skvöldruðu og og áttum góða kveðjustund.

Það er óhætt að segja að ferðin hafi gengið mjög vel og allir komu heilir og glaðir heim fróðari um íslandshestaheiminn í Þýskalandi.

Á næsta ári munum við taka á móti ungu hestafólki frá IPNR og verður það gaman að kynna fyrir þeim hvernig íslenski hesturinn er í sínu upprunalega umhverfi.  Við munum kappkosta að setja saman góða dagskrá og taka sem flest þátt í henni.

Að lokum viljum við þakka gestgjöfum okkar frábærar móttökur og verður gaman að hitta ykkur á næsta ári á Íslandi.

 

Flettingar í dag: 263
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 807
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 297716
Samtals gestir: 43197
Tölur uppfærðar: 8.1.2025 07:54:28

Hestamannafélag

Nafn:

Snæfellingur

Afmælisdagur:

Stofndagur 2. desember 1963

Heimilisfang:

Hjá formanni hverju sinni

Staðsetning:

Snæfellsnes

Um:

.....Stjórn Snæfellings......... Herborg Sigurðardóttir, formaður Nadine Walter,ritari Ólafur Tryggvason, gjaldkeri Hlynur Þór Hjaltason Sölvi Þór Konráðsson

Kennitala:

440992-2189

Bankanúmer:

191-26-00876

Tenglar